Kot - vikan 5-9 nóvember

09. 11. 2018

Sæl öll

Þessi vika hefur verið viðburðarík á Koti, að venju.

Börn úr 1.bekk í Akurskóla heimsóttu okkur á mánudaginn ásamt því að fyrsti snjór vetrarins stoppaði við svo við gætum leikið okkur í honum. Í hópastarfi hafa börnin verið að byggja stórar bílabrautir, búa til steina úr pappamassa, rannsaka andlitið sitt í speglum og farið í vettvangsferðir. Mörg barnanna eru einnig í eTwinning verkefnum og þar hafa Óperur, gróður og hákarlar komið við sögu.

Faglegt starf í hópa- og stöðvavinnu hefst kl. 9:30 og stendur til kl. 10:50. Þau börn sem koma á þeim tíma mega fara á útisvæði, þar eru kennarar sem taka á móti börnum. Þetta gerum við til að virða þá vinnu sem á sér stað í faglega starfinu og við reynum að hafa sem minnsta röskun fyrir börnin á þeim tíma.

Í samverustundum hefur Dagný verið að lesa Emil í Kattholti fyrir börnin og hafa ævintýri hans vakið mikla lukku. Bókin er framhaldsaga sem mun taka okkur nokkrar vikur en börnin hafa sýnt mikla þolinmæði og einbeitingu þegar hún er lesin. Þeim finnst grallarinn hann Emil ansi fyndinn.

Fjórir kennarar ásamt leikskólastjóra eru að fara til Ítalíu í næstu viku og heimsækja borgina Reggio Emilia. Þar er vagga okkar starfs sem við byggjum á - að kynnast öllum þeim 100 málum sem börn hafa og leyfa einstaklingum að njóta sín til fulls og blómstra.

Í næstu viku 13. nóvember er skipulagsdagur og er leikskólinn lokaður þann dag.

Föstudaginn 16. nóvember höldum við upp á Dag íslenskrar tungu með uppákomu í salnum. Þá verða börnin með atriðiði, hver með sinni deild, syngja og skemmta hvert öðru. Börnin á Koti ætla að syngja lag ræningjanna í Kardemommubæ. Þau hafa nær masterað textann í því lagi ásamt fleiri textum úr sömu sögu.

Hafið það sem best um helgina

© 2016 - 2019 Karellen