news

Fréttir af Hlíð

21. 02. 2020

Kæru foreldrar.

Takk fyrir þessa viku sem hefur einkennst af fjölbreyttu starfi okkar, hópastarfi, stöðvavinnu, tónlist, málörvun o.fl. Börnin eru áfram að skoða hvali, hákarla, fiskimenn og net og leika sér með þær hugmyndir. Við fengum krabba til skoðunar í vikunni sem alltaf er spennandi og vekur gleði og kátínu barnanna.

Góa drottning mætti í söngstund ásamt manni sínum Þorra kóngi og var mikið um að vera hjá þeim hjónum. Góu tókst að svæfa Þorra kóng og vonandi fáum við nú betra veður á næstunni með hækkandi sól og birtu :)

Næsta vika verður uppfull af skemmtun og gamni: Bolludagur, þá fá börnin að borða bollur í nónverði, Sprengidagur, saltkjötið og baunirnar fá að njóta sín, Öskudagur, þá mega börnin koma í búning, fara í salinn og slá "köttinn úr sekknum" auk þess að dansa og skemmta sér.

Í leikskólann eru að koma tveir nemar úr Kennaraháskóla Íslands og eru þeir á 3. ári. Karen Lind kemur inn á Hlíð á mánudaginn og mun vera hjá okkur í fjórar vikur. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til okkar.

Foreldrasamtölin verða þann 17. mars næstkomandi en þá er Skipulagsdagur hér í leikskólanum og við tökum samtölin þá. Nánari upplýsingar koma á næstu dögum.

Síðasta heimsóknin í Tónlistarskólann verður næsta þriðjudag eða þann 25. febrúar og þá fer þriðji hópurinn. Þessar heimsóknir hafa tekist einstaklega vel og gaman að sjá áhuga barnanna á hinum ýmsu hljóðfærum.

Bestu kveðjur og góða helgi.

© 2016 - 2020 Karellen