news

Laut, lok október

28. 10. 2019

Sæl öll,

Í seinustu viku var haustið ansi harkalegt við okkur. Veðrið var kalt og hvasst svo við héldum okkur að mestu leiti inni. Það gekk ósköp vel þó börn og starfsmenn hafi svo sannarlega saknað þess að komast út í ferskt loft.

Það er óhætt að segja að dagarnir á Laut séu uppfullir af fjöri. Börnin eru orðin vel kunnug hvort öðru, mörg farin að para sig saman í hliðarleik (leika hlið við hlið með samskonar dóti) og einhver jafnvel að byrja samleik (leika saman með dótið). Á þessum aldri eru börn mjög sjálflæg og því koma auðveldlega upp árekstrar þar sem tvö börn vilja leika með sama dótið, sitja í sama stólnum eða því um líkt. Hún Íris Dögg Jóhannesdóttir, leikskólakennari, skrifaði mjög áhugaverða hugvekju um það að skiptast á og leika saman og hvet ég ykkur öll til að kíkja á hana hér.

Við leggjum áherslu á að börnin æfi sig í að setja hvort öðru mörk og notumst við orðið „Stopp“ (og höndina upp) þegar þau verja sig. Lagið „við segjum stopp“ úr Vináttuverkefni Barnaheilla hefur verið vinsælt og höfum við hlustað á það inni á deild við frábærar undirtektir.

Í söngstund sýndu börn af Hlíð skuggaleikhús sem vakti mikla lukku barnanna á Laut, þau fengu að sitja fremst og fylgdust áhugasöm með leikritinu.

Hópastarfið raskaðist aðeins í síðustu viku vegna veðurs en þrátt fyrir það hefur einn hópur lagt í litla vettvangsferð, annar fór í tónlist ásamt allskyns tilraunum og skemmtunum inni á deild.

Börnin eru byrjuðað fá tækifæri til að vera þjónar. Þjónninn aðstoðar kennara við að leggja á borð, sækja matinn og segja „gjöriði svo vel“ við barnahópinn þegar allt er tilbúið. Þjóninn er með svuntu og þykir þetta mikil og skemmtileg ábyrgð. Við erum með þjóna um það bil einu sinni í viku og öll börn fá að prófa.

Eins og eflaust flestir hafa áttað sig á þá er ég , Lára, barnshafandi og mun því smátt og smátt minnka viðveru mína á deildinni fram til jóla. Hún Þórhildur Sif okkar tekur við deildarstjórn tímabundið á meðan ég er í fæðingarorlofi og nýr starfsmaður bætast við á deildina um eða eftir áramót.

Hlökkum til að taka á móti vetrinum með nýjum ævintýrum bæði inni og úti.

© 2016 - 2020 Karellen