news

Skipulagsdagur

31. 08. 2020

Kæru foreldrar/forráðamenn

Metnaðarfullur skipulagsdagur var hjá okkur hér í leikskólanum Holti í morgun, þar sem farið var yfir mikilvægi leiksins í leikskólastarfi. Í menntastefnu Reykjanesbæjar kemur fram að leikurinn er meginnámsleið barna. Hann skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfið sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar. Leikurinn er námsleiðin í leikskólum og nám barna byggir á því að læra í gegnum leikinn sem á að vera sem fjölbreyttastur og með viðfangsefnum sem krefjast lausna af ýmsum gerðum, þannig læra börnin, bæði inni og úti og byggja upp þroska sinn og færni.

Farið var yfir hlutverk kennara í leiknum, en í aðalnámskrá leikskóla frá 2011 um nám og leik barna kemur m.a fram að hlutverk kennara er að styðja við nám barna í gegnum leik á margvíslegan hátt t.a.m.

Skapa fjölbreytilegt leikumhverfi og veita aðgengi að leikefni sem hvetur börn til að rannsaka, finna lausnir og skapa.

Gefa leik nægan og samfelldan tíma.

Gefa leik nægjanlegt rými svo að börnin hafi svigrúm til að hreyfa sig og til að þróa leik og dýpka.

Styðja við sjálfsprottnar athafnir og áhuga.

Eiga samskipti við börn og mynda tengsl við þau í gegnum leik.

Vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem upp koma í leik og nota þau til að kveikja áhuga barna og styðja við nám þeirra.

Styðja við og efla jákvæð samskipti í leik.

Sjá til þess að öll börn hafi tækifæri til þátttöku í leik úti og inni.

Einnig var farið yfir Stefnu leikskólans Reggio Emilia um sameiginleg gildi, áherslur, starfsaðferðir, uppeldisfræðilegar skráningar og umhverfið sem þriðji kennarinn, en í anda Reggio Emilia eru þrír kennarar, það er kennarinn, barnið og umhverfið.

Kara Tryggvadóttir Kennari og nemandi í meistaranámi í leikskólakennarafræðum við Háskóla Íslands kynnti verkefnið sitt sem hún er að vinna í tengslum við nám sitt og fjallar það um hvernig er hægt að nýta umhverfið sem þriðji kennarinn betur.

Bestu kveðjur

Starfsfólk Holts.

© 2016 - 2020 Karellen