Karellen

Leikurinn

Leikurinn er hornsteinn leikskólastarfs, lífstjáning og gleðigjafi barns. Hann er uppspretta sköpunar og hugmynda. Af leik skapast ný þekking, nýjar athafnir, tilfinningar og leikni. Félagsleg færni barnanna eykst í samskiptum þeirra við leikfélaga og þau læra að taka tillit til hvers annars og vinna saman. Leikur er líf og starf barnanna og þar sem þau fá tækifæri til að vinna úr upplifunum sínum og geta sjálf skipað sér í ýmis hlutverk og virkjað þannig sköpunargáfu sína á margvíslegan hátt.

Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er kjarninn í uppeldisstarfi allra leikskóla. Leikskólakennarar þekkja leik barna, þeir virða leikinn, hlúa að honum, gefa honum rými og skipuleggja leikumhverfi barnanna. Fullorðnir og börn eru hluti af því umhverfi.Lögð er áhersla á mikilvægi leiksins sem náms- og þroskaleiðar.

Nám í leik

Hinn frjálsi sjálfsprottni leikur er æðstur allra leikja. Margs konar upplifanir barnsins, svo og dagleg störf fullorðna fólksins, glæða leik barnanna lífi og innihaldi. Í leikskólastarfinu er barnið í brennidepli, starfshættir eiga að taka mið af þroska og þörfum hvers barns.

Leikskólanám er samþætt nám þar sem námssvið og námsþættir fléttast inn í daglegt líf og leik barnsins.

Leikur er eitt það mikilvægasta sem börn taka sér fyrir hendur. Leikur er nauðsynlegur til að stuðla að eðlilegum þroska og almennri velferð barna.

Síða í vinnslu

© 2016 - 2023 Karellen