Að byrja í leikskóla er ný reynsla fyrir barnið og foreldra þess. Allt er framandi og ókunnugt og því er mikilvægt að vel sé staðið að aðlögun í upphafi. Hvernig til tekst í byrjun getur haft áhrif á alla leikskólagöngu barnsins. Á meðan á aðlöguninni stendur er mikilvægt að foreldrar kynnist starfsfólki deildarinnar og því starfi sem fram fer í leikskólanum. Með því er lagður góður grunnur að framtíðinni.
Á Holti notum við aðferð sem kallast þátttökuaðlögun í aðlögun nýrra barna. Leikskólinn er samfélag þar sem fullorðnir og börn byggja upp þekkingu saman, staður námstækifæra. Barnið tekur virkan þátt í að móta umhverfi sitt og þekkingu. Í þeim anda er þátttökuaðlögun. Hún byggist á því að ekki sé verið að venja barnið við að vera skilið eftir í leikskólanum, heldur sé það að læra að vera í nýjum aðstæðum. Aðlögunin byggir á fullri þátttöku foreldranna í starfi leikskólans þá daga sem hún á sér stað.
Við þátttökuaðlögun er tiltekinn dagur upphafsdagur leikskólans og þann dag mæta flestir foreldrar og börn sem eiga að byrja á sömu deild, saman í leikskólann. Fundað er með foreldrum áður en aðlögunin hefst og þeir búnir undir það sem framundan er.
Fyrirkomulagið er að foreldrar eru með börnunum í þrjá daga að jafnaði frá níu til þrjú. Foreldrarnir eru inni á deild með börnum allan tímann nema þegar þau sofa. Foreldrar sinna eigin börnum, skipta á þeim, gefa þeim að borða, leika með þeim og eru til staðar. Starfsfólkið tekur að sjálfsögðu líka þátt, skipuleggur daginn, deilir út verkefnum og skráir. Þegar nokkur börn byrja samtímis eru fyrirlestrar fyrir foreldra í hádeginu, þar sem skólastarf og hugmyndafræði eru kynnt. Á fjórða degi koma börnin um morguninn, kveðja foreldrana og eru svo allan daginn. Einstaka börn hafa foreldra sína með sér í fjóra daga en reynslan sýnir að þau eru fá. Auðvitað verða foreldrar að vera viðbúnir að stytta daga barnanna er þörf er á.
Þátttökuaðlögun byggist m.a. á þeirri trú að foreldrar smiti eigin öryggiskennd, forvitni og spennu yfir þessum nýju aðstæðum til barna sinna. Með því að foreldrar séu fullir þátttakendur frá fyrsta degi öðlist þeir öryggi um dagskipulagið og það sem á sér stað í leikskólanum, þeir sjái starfsfólk í verki. Þeir kynnast ekki bara starfsfólki heldur öðrum börnum, foreldrum og því sem á sér stað í leikskólanum.
Þegar börn flytjast á milli deilda sjá deildarstjórar viðkomandi deilda um aðlögunina.