Karellen

Verið hjartanlega velkomin í leikskólann Holt

Í leikskólanum er lögð áhersla á gott samstarf við foreldra með velferð barnsins að leiðarljósi. Við teljum mikilvægt að góð samvinna náist strax í byrjun milli foreldra barnsins og starfsfólks þar sem gagnkvæm samvinna og trúnaður er forsenda þess að barninu líði vel. Áhersla er lögð á opinn, jákvæð, dagleg samskipti við foreldra. Lögð er áhersla á að starfsfólk leikskólans vandi framkomu sína við foreldra og virði foreldra og ákvarðanir þeirra. Daglegar upplýsingar um barnið heima og í leikskólanum eru nauðsynlegar því að oft geta lítil atvik í lífi barnsins, valdið breytingum á hegðun þess.

Foreldrar eru velkomnir í leikskólann til þess að taka þátt í því starfi sem þar fer fram, í samráði við starfsfólk. Þeir eru sérstaklega boðnir í foreldrakaffi, í einkasamtöl, á foreldrafundi o.s.frv.

Að byrja á leikskóla er stórt skref og ný reynsla bæði fyrir foreldra og barn. Mikilvægt er að vel sé staðið að aðlöguninni strax í upphafi. Góð aðlögun getur haft afgerandi þýðingu fyrir alla leikskólagöngu barnsins. Á meðan á aðlögun stendur, er mikilvægt að foreldrar kynnist starfsfólki á deildinni og kynni sér starfsemi og dagskipulag leikskólans.Góð samvinna foreldra og starfsfólks leikskólans er mikilvægur þáttur í starfsemi leikskólans. Börnin eru fljót að skynja ef samvinna foreldra og skóla er ekki í góðu lagi og það hefur áhrif á líðan barnsins.

© 2016 - 2023 Karellen