Grunnforrit
Í App Store er til mikill fjöldi smáforrita en við mælum með því að vanda valið og nota fá grunnforrit og læra vel á þau.
Hér er listi yfir þau forrit sem mest eru notuð í verkefnavinnu í leikskólanum Holti:
MAKEY MAKEY
Makey Makey er lítið tæki sem breytir allskonar hlutum í stjórntæki þegar það er tengt við tölvu. Hægt er að láta ímyndunaraflið ráða för og meðal annars nota banana, vatnsglas, leir og fleira til að stýra tölvuleikjum, skapa tónverk og fleira.
Hér eru börnin að prufa sig áfram með banana, peru og vatnsglös sem þau nota sem stjórntæki til að spila á píanó.
Makey Makey býður upp á áþreifanlegan lærdóm, samvinnu nemenda í lausnaleit og nám í takt við tölvuþróun 21. aldarinnar. Tækið á heima á öllum skólastigum og hér erum við að leggja grunnin að gangrýninni hugsun og læra af reynslunni. Tækið er góður grunnur fyrir áframhaldandi nám í margbreytilegu samfélagi og tengist meðal annars vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði
Þetta er skemmtilegt og skapandi tæki sem býður upp á marga möguleika í skapandi vinnu í leikskólanum. Á heimasíðu makey makey má sjá nánari upplýsingar um tækið og hugmyndir af vinnu með það.
BLUE-BOT – FORRITUN
Blue-bot (og bee-bot) er forritunarleikfang í formi býflugu. Býflugunni er stjórnað með tökkum á baki hennar. Einnig er hægt að sækja smáforrit í spjaldtölvu til að stjórna henni.
Hægt er fá margskonar mottur sem býflugan getur ferðast um á. Við á Holti erum búin að útbúa okkar eigin mottur með ferningum sem hægt er að skipta út myndum, eftir því hvaða viðfangsefni er verið að vinna með.
Á heimasíðu Blue-bot má finna ýmsar hugmyndir um forritunarvinnu með ungum börnum. https://www.bee-bot.us/
Á þessum myndum er hægt að sjá forritun á byrjunarstigi þar sem notaður er teningur og börnin færa býfluguna eftir því hvaða tala kemur upp.
Hér eru börnin að búa til mottu út frá eigin hugmyndum. Þau teiknuðu myndir og kennari aðstoðaði þau við að skrifa við myndirnar. Svo þurftu þau að finna út hvernig þau kæmust að ákveðinni mynd frá byrjunarreit.
Á Holti eru stafir og ritmál sýnilegt í öllu umhverfi leikskólans. Ein mottan sem kennarar bjuggu til er stafamotta sem hægt er að vinna með á ýmsa vegu. Kennarar og börn láta hugmyndaflug sitt ráða för og finna meðal annars stafinn sinn eða stafa lítil orð.
Hér má sjá barn æfa sig að forrita býfluguna til að hún komist á áfangastað.
PUPPET PALS
Skapandi smáforrit í vinnu með börnum
Puppet pals hefur marga möguleika í vinnu með börnum. Það er hentugt í málörvun og sögugerð svo dæmi séu nefnd.
Höfundar geta valið sér leikara úr myndasafni smáforritsins eða teiknað þá í spjaldtölvu eða á blaði og tekið af þeim mynd, forritið býður líka uppá að börnin sjálf verði leikarar. Þá taka þau myndir af sér og klippa til í forritinu.
Höfundur velur líka bakgrunn í sögunni. Hægt er að velja tilbúna í forritinu eða búa til sjálfur með sama hætti og leikarana.
Við sögugerðina er leiksvið þar sem höfundar draga leikara á sviðið og færa þá til ásamt því að tala inn á forritið. Forritið er mjög auðvelt og börnin eru fljót að læra á það. .
Hægt er að vista sögurnar í camera roll í spjaldtölvunni og auðvelt er að ná þeim þannig út af forritinu.
Í Puppet Pals er verið að vinna með marga þætti svo sem orðaforða, málvitund, frásögn. Börnin læra að skiptast á og taka tillit til annara, þau læra hugtök tengd sögugerð og að sögur hafi upphaf, miðju og endir.
Kennarar geta prufað sig endalaust áfram með forritið og auðvelt að er að flétta saman mörgum þáttum leikskólastarfsins í forritið. Börnin geta teiknað upp sögu, þau geta útbúið bakgrunna, búið sér til búninga og margt fleira.
Á listahátið barna í Reykjanesbæ var þemað sögur og ævintýri. Börnin á elstu deil í leikskólanum bjuggu þá til nokkur ævintýri í Puppet Pals og vörpuðu á vegg í sýningarsalnum. Það var skemmtilegt að geta sýnt fram á að listsköpun er allskonar.
Einnig unnu börnin myndband í sambandi við eTwining verkefni þar sem skólinn var að vinna með bókina “sagan um græna köttinn” í samstarfi við Spán, Pólland og Slóveníu.
Þau bjuggu til tvö myndbönd í því verkefni. Fyrsta verkefnið var um töfraegg og má sjá hér:
Seinna myndbandið snérist um það hvað græni kötturinn gerir á morgun. Hér má sjá það:
Hér er myndband sem var búið til í tengslum við eTwinning verkefni þar sem unnið var út frá óperunni “The Flying Dutchman”. Börnin á Íslandi bjuggu til myndina en börnin í Svíþjóð gerðu tónlistina.
Puppet Pals er líka frábær leið til að kenna börnum eftirsótta hegðun til dæmis með félagshæfnisögum þar sem barnið er í aðalhlutverki.
Kennarar geta líka sjálfið notað forrtið og lesið inn sögur og er þá komin upp “bíósaga”. Forritið býður upp á marga möguleika og um að gera að láta hugmyndaflugið ráða för.
Hér er kennsluvefur Fjólu Þorvaldsdóttur leikskólakennara um forritið. Þar má meðal annar finna hugmyndir og kennslumyndbönd
http://bruduleikur.weebly.com/
OSMO
Osmo er margverðlaunaður leikur og viðurkennt kennslutæki fyrir spjaldtölvu.
Genius kit inniheldur; stand fyrir spjaldtölvu og lítinn spegill sem er settur yfir myndavélina sem varpar henni niður svo hún nemi það sem á sér stað fyrir framan skjáinn. Í Genuis kit eru fylgihlutir fyrir leikina; Tangram, Words og Numbers. Nánar verður fjallað um þá hér á eftir.
Leikskólinn á líka Creative kit. Það inniheldur; stand fyrir spjaldtölvu og lítinn spegill sem er settur yfir myndavélina sem varpar henni niður svo hún nemi það sem á sér stað fyrir framan skjáinn. Pennaveski með nokkrum lituðum töflutússum, teikniborð og afþurrkunarklút. Með Creative kit spilum við leikinn Monster, en nánar verður fjallað um hann hér neðar.
Í Osmo er verið að vinna með áþreifanlega hluti þar sem barnið fær að handleika efniviðinn og skapa til að hafa áhrif á það sem á sér stað á skjánum. Meðal annars er verið að þjálfa fínhreyfingar, rökhugsun, grip, teikningar, hljóðkerfisvitund, stærðfræði, töluþekkingu, gera tilraunir og prófa sig áfram og bæta við þekkingu sína í leiðinni.
Alla leikina sem hægt er að spila í Osmo er hægt að sækja frítt í App Store. Auðvelt er að setja Osmo upp og byrja að spila. Osmo gefur út fleiri pakka sem leikskólinn er ekki að vinna með að svo stöddu. Þá þarf að kaupa aukahluti til að spila þá leiki. Dæmi um þá ert Coding Jam, Coding Awbie og Pizza Co.
Tangram:
Í Tangram er meðal annars verið að vinna með form, rökhugsun, samhæfingu augna og handa og fínhreyfingar. Formunum er raðað saman eftir fyrirmynd á skjánum. Myndavélin nemur hvar formin eru stödd og hvort þau séu á sínum stað. Því lengra sem nemandinn kemst áfram í leiknum stigþyngjast borðin.
Í words er verið að leika að stöfum og orðum. Nemendur eiga að raða stöfum saman og mynda orð sem passar við mynd sem birtist á skjánum. Í pakkanum fylgja tvö sett af stöfum í sitthvorum litnum gefur kost á að nemendur keppi sín á milli. Enn sem komið er eru flest orðaverkefninu á ensku en þó eru komin nokkur íslensk verkefni sem má finna og hala niður af heimasíðu Osmo. Þróun og vinna með íslensku verkefninu eru enn í gangi í leikskólanum.
Einnig er hægt að búa til sín eigin verkefni í Words en til að gera það þarf að skrá sig inn á heimasíðu Osmo.
Numbers
Numbers pakkinn inniheldur spjöld, annars vegar með tölustöfum og hinsvegar með punktum. Nemendur þurfa að nota rökhugsun, hreyfifærni og hugsa út fyrir rammann til að leysa verkefni. Engin tímamörk eru í leiknum og því hafa börnin nægjan tíma til að prófa sig áfram.
Leikurinn er sjónrænn og gerist í sjávarheimi þar sem boðið er upp á samlagningu, frádrátt, deilingu og margföldun. Í þessum leik byggja börnin ofan á eigin þekkingu og læra af reynslunni
Monster
Monster er teiknileikur sem snýst um að barnið teiknar hluti. Mo er einskonar skrímsli sem biður barnið um að teikna ákveðna hluti. Mo dregur svo myndina til sín svo hún birtist á skjánum og Mo notar myndina til ýmissa hluta. Enn sem komið er talar Mo bara ensku en það birtast líka myndir af því sem Mo er að biðja um og því er ekki nauðsynlegt að hafa hljóð á í leiknum. Monster er skemmtilegur leikur sem þjálfar grip, fínhreyfingar, samhæfingu augna og handa. Leikurinn er líka gott tæki í sérkennslu þar sem hægt er að flétta saman marga þætti við notkun leiksins.
Hér er skemmtilegt myndband af stúlku sem er áhugasöm um moster leikinn í Osmo. Jafnframt er hún með skilaboð til foreldra sinna
Námsleikir - heima
Það er til hafsjór af allskyns leikjum sem margir hverjir eru markaðssettir sem námsleikir, það er því mikilvægt að vera gagnrýnin á það efni sem við bjóðum börnunum okkar upp á. Það er ekki nóg að lesa bara lýsinguna á leikjunum heldur er mikilvægt að við prófum þá sjálf.
Við fullorðna fólkið stjórnum hvað fer inn í símana og spjaldtölvurnar, við þurfum að vanda valið, vera ákveðin og bjóða bara upp á það sem okkur finnst vera við hæfi barnanna.
Við leggjum mikið upp úr því að nota vandað efni í leikskólanum og við mælum með því að foreldrar geri slíkt hið sama. Það er betra að eiga fáa góða og vandaða leiki og borga nokkrar krónur fyrir þá en að eiga fulla spjaldtölvu af efni sem á e.t.v. ekki erindi til barna eða er með óæskilegum uppspretti gluggum og auglýsingum.
Þegar við veljum leiki göngum við út frá nokkrum forsendum:
- Að leikirnir séu lausir við auglýsingar
- Að leikirnir séu lausir við ofbeldi
- Að leikirnir séu aðlaðandi og hafi góðan boðskap
- Að leikirnir bjóði upp á tækifæri til að læra eða efla einhverja færni í gegnum skemmtilegan leik
- Að leikirnir séu að mestu lausir við erlenda talsetningu og fyrirmæli, veljum íslenskt þegar hægt er og leiki sem er hægt að talsetja
- Það er kostur þegar leikirnir eru opnir þ.e. þegar hægt er að gera hlutina á fleiri en einn hátt.
- Það er kostur þegar leikirnir snúast um sköpun, að búa eitthvað til t.d. sögur, teikningar, fígúrur eða annað.
Tölvuleikir geta verið skemmtileg leið til að læra en þar skiptir höfuðmáli að foreldrar eða kennarar séu nálægt og spjalli um það sem er að gerast á skjánum. Einnig bendum við foreldrum á að skoða viðmið um skjánotkun barna sem er að finna hér neðar á síðunni.
Nokkir leikir til viðbótar...
Það er um að gera að nýta allt það efni sem hér er fjallað um hér á síðunni líka heima, við notum leiki ekki mikið í starfinu almennt en þeir eru notaðir í sérkennslu og til að vinna með einhverja ákveðna færni í minni hópum. Stundum fá börnin að fara í leiki í spjaldtölvunum en það er þá tengt annarri verkefnavinnu, t.d. ef við erum að vinna með stærðfræði í hópastarfi þá gæti t.d einn hópur verið í stærðfræðileik en mest er þó unnið með öpp eins Puppet Pals sem miða að því að skapa eitthvað og efla læsi í víðum skilningi.
Hér á eftir koma nokkrir leikjaframleiðendur sem bjóða upp á vandað efni fyrir börn sem foreldrar geta skoðað. Þetta eru leikir sem við höfum prófað en erum ekki að nota í leikskólanum.
Sago Mini
Vandaðir, einfaldir leikir sem hafa hlotið mörg verðlaun fyrir góða hönnun. Sago Mini leikirnir henta vel fyrir allra yngstu börnin, leikirnir eru opnir á þann hátt að barnið ákveður sjálft hvað það gerir, það er enginn ein rétt lausn. Oft snúast leikirnir um einhverskonar sköpun eins og t.d. að búa til hatta, skrímsli eða pöddur en einnig eru leikir þar sem reynir á talningu, að raða og flokka o.þ.h. Leikirnir eru lausir við auglýsingar og ofbeldi.
Hér er hægt að skoða leikina - Vefsíða Sago Mini.
Dr. Panda
Vandaðir leikir þar sem unnið er með ýmsa færni í gegnum leik. Það eru til allskyns leikir í þessari seríu s.s. kaffihús, skóli, veitingastaður o.s.frv. sem sniðugt er að nýta til að auka ákveðinn orðaforða. Dr. Panda leikirnir hafa fengið ýmis verðlaun, þeir eru litríkir og fallegir, lausir við auglýsingar og ofbeldi. Ættu að geta gengið fyrir öll börn á leikskólaaldri.
Hér má sjá myndband úr leik sem heitir Dr. Panda's Hospital, í myndbandinu er hægt að sjá hvernig leikirnir eru uppbyggðir, á spítalanum er nóg að gera og fullt af nýjum orðum sem hægt er að læra ef foreldri og barn spila leikinn saman.
Hér er hægt að skoða alla leikina sem eru í boði - Vefsíða Dr. Panda.
Bugs and Buttons
Bugs and Buttons eru leikir þar sem unnið er með alhliða færni á borð við rökhugsun, talnaskilning, hugtakaskilning, fínhreyfingar o.fl. Aðalsöguhetjurnar í þessum leikjum eru pöddur eins og nafnið gefur til kynna og geta þær hentað þeim sem vilja örlítið minni krúttfaktor í leikina sína.
Hér fyrir neðan má sjá kynningar myndband um Bugs and Buttons leikinn:
Það eru til nokkrir Bugs and Buttons leikir sem hægt er að skoða nánar með því að smella á hlekkina hér fyrir neðan,
Stafirnir okkar
Stafirnir okkar er leikur fyrir börn á aldrinum 2-5 ára sem eru að læra að þekkja íslensku bókstafina og hljóðin þeirra. Einfaldur leikur eða nokkurs konar rafbók sem gengur mest út á að skoða stafina.
Stafa plánetur
Stafa Plánetur er gagnvirkur vefur ætlaður þeim sem eru að byrja að læra stafina. Vefurinn er á svæði námsgagnastofnunar og því aðgengilegur úr öllum tölvum sem hafa nettengingu. Leikurinn hentar vel fyrir spjaldtölvur. Hægt er að spora stafina, skoða þá eða æfa sig að finna réttan staf eftir fyrirmælum.
http://vefir.nams.is/stafaplanetur/
Tulipop
Stafaapp á íslensku, spjöld með stöfunum, lesið inn á bæði nafn stafsins og hljóðið.
Georg og félagar, Georg og leikirnir
Íslenskur leikur með hinum sívinsæla Georg. Minnispil, samlagning, talnaskilningur o.fl. Bókstafir og tölustafir. Frítt app.
Viðmið um skjánotkun
Hér fyrir neðan eru viðmið um skjánotkun barna sem við mælum með að allir foreldrar fari eftir. Í leikskólanum notum við spjaldtölvurnar í sérstökum verkefnum en þær eru ekki í boði dags daglega þess vegna verður tölvunotkun barnanna í leikskólanum alltaf mjög lítil.
Tölvuleikir geta verið skemmtileg leið til að læra en þar skiptir höfuðmáli að foreldrar eða kennarar séu nálægt og spjalli við barnið um það sem það er að gera í tölvunni.